Þriðjudagur, 13. mars 2007
Dabbi dindill
Litli bróðir á afmæli í dag, 33 ára sem er ótrúlegt. Heldur hefur hann róast með árunum og mátti það nú sossum lagast. Óþekkari pjakkar fundust ekki á Fossi en Davíð og Erlingur. Engu var hlíft þegar sá gállinn var á þeim og þeir voru yfirleitt á þeim gálnum. Hús, bílar, vagnar, ekkert var þess virði að ekki mætti brjóta, mála, velta, rífa.
Man samt þegar hann kom fyrst að Fossi, vorum vestur í gamla bænum þegar Pétur frændi renndi í hlað með hann og mömmu og við rukum eins og fætur toguðu austrí til að skoða þennan verðandi yfirprins og eftirlæti allra í fjölskyldunni sem voru nú að vona að fæðst hefði loksins viðráðanlegt barn. Stína Jóns kom lika á sprettinum og í ákafanum yfir komu þessa barns, sem allir höfðu beðið eftir, gaf hún sér ekki einu sinni tíma til að toga af sér stígvélin heldur þrammaði bara alla leið inn í hjónaherbergi og stóð þar á koddunum, alveg gáttuð yfir fegurð þessa nýfædda prins. Tekið skal fram að hún var aðeins 3ja ára. Sorry Stína, mátti til að ljóstra þessu upp, við erum búin að brosa að þessu í 33 ár í vesturbænum án þess að þú hafir haft hugmynd um það.
Nú, prinsinn var kominn og vantaði nú fáa til að líta á gripinn nema kannski virtingana 3. Þvílíkt barn, þvílík hamingja, þvílík eftirlátssemi sem þarna hófst og átti eftir að haldast fram eftir öllum árum. Ekki mátti heyrast bofs eða stuna, þá var rokið til . Oft lenti ég í því að troðast undir í látunum .
Ég gekk út í fjós, mokaði flórinn og hugsaði málið. Getur verið að þetta sé það sem koma skal, getur verið að ég verði gefinn til ókunnugra?
Drengurinn óx úr grasi og dafnað vel, enda alinn upp á sparifæði, komst vel til manna og spjarar sig nú bara vel.
Til hamingju með daginn, litli bróðir.
kv
Helgi
Athugasemdir
Til hamingju með litla bróður
Ágúst Dalkvist, 13.3.2007 kl. 16:43
Meira hvað hann Davíð er orðinn gamall.
Valdi Kaldi, 13.3.2007 kl. 17:10
Til hamingju með Dabba bróðir! Ótrúlegt hvað tíminn líður og takk fyrir að reikna út fyrir mig í leiðinni hvað ég er komin til ára minna obbosíí!
Gaman að því að hafa í öll þessi ár glatt nágrannana með því að hafa vaðið yfir þá á skítugum skónum, það er ekki öllum sem lánast það . Þessi indæla saga fer í sagnabankann. Kveðja Stína ekki svo mikið sorrý!
Kristín Jónsdóttir, 13.3.2007 kl. 17:43
Greyið Helgi , bara að hann fengi jafn mikla athygli og bróðir sinn.
Davíð Már (IP-tala skráð) 14.3.2007 kl. 18:39
Til hamingju með litla bróðir, mér var nú alltaf sagt að við Davíð hefðum ekki komist í hálfkvist við þig og Helga B. Kveðja Erlingur
Erlingur Sigurgeirsson (IP-tala skráð) 14.3.2007 kl. 20:34
Ég kannast ekkert við það.
HP Foss, 14.3.2007 kl. 21:07
Þetta var nokkuð gott hjá þér Erlingur, ég segi ekki meira, en þeir brutu samt aldrei rúður og kveiktu ekki í.
mamma (IP-tala skráð) 15.3.2007 kl. 09:12
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.