Skuggi

Wednesday, August 24, 2005

Haustið var komið á ný og sólin skartaði sínu fegursta í vestanáttinni. Drifhvítar ærnar, með dilkana sína, runnu með Stóragilinu eins og tær fjallalækurinn á milli fagurgrænna torfanna. Við Rauður og Skuggi vorum sendir til að beina hópnum rétta leið, fram yfir Öðulbrúará.
Árið áður var ég staddur á þessum sama stað,í sama tilgangi, ásamt fleirum smölum , hestum fjórhjólum og hundum . Er skemmst frá því að segja að sjaldan hefur strákurinn frá fossi orðið jafn reiður og aldrei reiðari. Hundarnir þustu á móti hópnum sem splundraðist í allar áttir með tilheyrandi spani smalanna og lífshættulegri efirför.
Nú var annað á teningnum, við rauður og Skuggi vorum sendir einir í þetta verkefni. Var nú ekki meira en svo að mér litist á blikuna, minnugur baslsins árið áður og voru þá 10 hundar en nú aðeins einn. Féð streymdi austur af heiðinni og fór brátt að sjá í hvíta kolla á aurnum við ánna. Þetta voru áreiðanlega 3000 kindur sem komu á harðahlaupum. Þarna stóðum við þrír, gráir fyrir járnum. Þegar hópurinn átti um 30 metra í okkur stoppaði hann, allar 3000. Ég stóð grafkyrr, skíthræddur um að tapa öllu safninu út í hraun. Rauður stóð einnig grafkyrr, enda hélt ég í tauminn. Skuggi stóð grafkyrr og horfði beint í augun á fremstu kindunum, einbeittur á svip. Kindurnar horðu á okkur, svo á beljandi Öðulbrúaránna á hægri fót og á hraunið á þann vinstri. Skuggi tók hæga en örugga hreyfingu til hægri og færði sig um fjóra metra. Kindurnar horfðu á hann og síðan á fljótið. Hann settist og virtist sallarólegur. Hann stóð upp og færði sig um tvo metra til viðbótar og settist þar. Tók þá fjárhópurinn undir sig stökk, fleygði sér í ánna, og synti yfir.
Skuggi stóð upp og fyldist með á meðan þessar 3000 kindur fóru sína leið fram á heiðar. Síðan kom hann til okkar Rauðs, gekk einn hring í kringum okkur, dillaði rófunni sinni og settist hjá mér.

Skuggi var besti vinur minn.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband