Mánudagur, 28. febrúar 2011
Fiskimjöl og lýsi.
Mér þótti alltaf hálf ónotalegt að teygja mig ofan í mjéltunnunna á dimmum vetrum, dimmt í húsunum og jafnvel lítið í tunnunni. Helvítis mýsnar voru seigar að koma sér í allsnægtir og demba sér í mélið. Þegar maður var svo kominn á hvolf, standandi á höndum með lappirnar beint í loft upp, skutust þær með ógnarhraða undan höndunum á manni, upp handlegginn og út í fjárhús. Við slíkri kveðju brást maður með því að spretta á fætur leiftursnöggt . Á þessi augnabliki birti þó í smá stund, sökum fölvans, og maður gat séð hvort fleiri mýs voru í tunnunni.
Fóðurbætirinn var jú settur yfir heyið þegar það var komið á garðann. Áður var búið að renna lýsi yfir töðuna og að loknu þessu verki var maður kominn, fyrst með lýsið upp að olnbogum og svo fiskimjölið þar yfir. Lyktin af manni eftir þetta, með fjárhússlyktinni aukreitis, var slík, að vart verður með orðum lýst. Hún var með manni þar til komið var að næstu gjöf.
Þennan ilm finn ég reglulega hér í bílskúrnum hjá mér og finnst þá að ég komist næst því að finnast ég vera bóndi, reyndar með því að loka augunum og berja í haus minn fjarlægan draum. Svo vakna ég upp af þessum dásamlega draumi þegar ég opna augun og sé að þessi unaðslegi ilmur, sem framkallar þessar fögru minningar, er aðeins af hundafóðrinu sem ég kaupi í bónus og moka í Tuppevare plastdolluna.
En, mikið er samt gott að eiga þennan draum, svona aftur og aftur.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.