Færsluflokkur: Bloggar

Jón og Ranka í Gýgjarhólskoti

23. apríl 1985 kom ég að Gýgjarhólskoti í verknám, sendur frá Hvanneyri 16 ára gamall. Í Gýgjarhólskoti var ég í  3 frábæra mánuði, hjá Jóni og Rönku, sem voru ein þau mestu sómahjón sem ég hef kynnst og tóks með okkur ævilöng vinátta, vinskapur sem reyndar var ekki ræktaður nærri eins og ég hefði viljað, horfandi á eftir þeim báðum yfir móðuna  miklu í vor. 

Jóni leist reyndar ekki á blikuna þegar Ranka færði honum þau tíðindi að von væri á strák þessum frá Hvanneri:

Hann er sjálfsagt hrekkjaþræll,
hrotti, skammahvatur.
Þjösni, böðull, þegi dæll,
Þjófóttur og latur.

Eftir vændræðalega byrjun, þar sem ég, svona til að segja eitthvað, spurði Jón hvað skerið við bæinn héti, fann ég strax að þarna var alvöru maður á ferð og hvílík gæðakona hún Ranka. Jón sagði mér sem sagt þarna við eldhúsborðið, nokkuð ákveðið fannst mér, að þau kölluðu þetta FJALL, og það héti Gýgjarhólsfjall, Ranka bauð mér brúnköku og mjólk í eftirrétt.

Allir dagar voru skipulagðir og vinna var það sem lífið gekk út á í Kotinu. Búskapurinn var sérlega glæsilegur og bar þeim vitni um þann dugnað sem í þeim bjó. Á sunnudögum var svo eitthvað gert til skemmtunar, útreiðar og annað í þeim dúr.

Þegar voraði, sem var reyndar vonum seinna en á Síðunni, var mikið að gera og til að tefja mig ekki frá búskapnum, fann Ranka fyrir mig allar plönturnar í grasasafnið, sem okkur var skylt að skila á Hvanneyri, greindi þær og þurrkaði. Við Grímur, Jón og Kalli skrölluðumst í verkunum.

Á hverjum jólum fékk ég senda smá greinagerð frá þeim hvað væri svona að frétta og vísa fylgdi alltaf með, enda Jón mikill hagyrðingur.

Þegar ég var búinn að vera nokkurn tíma í Kotinu, skrifaði Jón þessa niður:

Vinafús og verkaknár,
vandur að sínu ráði.
Helgi reynist heldur skár,
heldur en ég spáði.

Og þegar sumraði í Tungunum, kom að lokum dvalar minnar í Gýgjarhólskoti. frábærum tíma sem á sess í mínu hjarta alla ævina og allar minningarnar ljúfar. 
Jón lést svo í mars og Ranka í maí, sem er reyndar lýsandi þeirri samstöðu sem einkenndi þeirra hjúskap. 
Það er svolítið skrítið að sakna fólks sem maður var í raun ekki með lengur en þessa 3 mánuði, en marka svo djúp spor í minningar manns og því var mér mikill heiður sýndur, þegar Eiríkur hafði samband við við og spurði hvort ég hefði hug að að eignast málverkið sem hékk í stofunni hjá þeim og var víst áður í hjá föður Jóns, Karli. Það var nefniega það fyrsta sem mér var sýnt á bænum, því fyrir ofan sófann í stofunni hékk málverk af Fossi á Síðu. Þótti okkur öllum þetta skemmtilega tilviljun.

Í dag fór ég sem sagt í Tungurnar og sótti þennan forláta grip, sem ég mun geyma eins og sjáaldur augna minna og ég er ekki vinn um að þau systkynin í Kotinu, viti hvað þetta er mér mikils virði.

IMG_3060

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Þess má svo geta, að þegar ég fór frá Gýgjarhólskoti, 10. júlí 1985, fékk ég að gjöf ofangreinadar vísur, sem ég hafði að sjálfsögðu ekki hugmynd um, og eina í víðbót, sem er reyndar eitt það fallegsasta sem einhver hefur látið um mig falla, ég er reyndar frekar feiminn með hana og hef  því ekki áður birt en er í dag bæði meir og lítill í mér:

Leggur út á lífsins braut
hispurslaus og prúður.
Helgi laysir hverja þraut.
laus við þras og múður.

Blessuð sé minning Jóns og Rönku.


Vor"veiðimenn"

Ég ætla svo sannarlega að vona að svokallaðir “veiðimenn” sem nú standa í skaftfellsku ánum, fái ekki bröndu. Tæplega verðu mér að ósk minni, niðurgöngufiskur bítur á hvað sem er.

Það er gott fyrir menn sem veiða yfirleitt lítið að fara í vorveiði. Einnig er það gott fyrir menn sem ekki hafa þroskann til að bíða eftir að fiskurinn komi til baka að skella sér í vorveiði. Vorveiði er kjörin fyrir menn sem í raun kunna ekki að umgangast veiðiár.

Á seinni árum hafa menn reyndar farið út í að veiða aðeins á flugu og veiða og sleppa stíllinn er sagður viðhafður. Það er nú líka það eina sem hægt er að gera við niðurgöngufiskinn, nema ef vera skyldi að setja hann í ruslagáminn á Klaustri, eina og oft hefur sést.

Mýtan um nýgenginn sjóbirtinginn er jafn hjákátleg og áður, enda sér maður það sjaldnar nefnt í bólgnum greinum þar sem menn stæra sig af tugfiska veiði á dag. Sjóbirtingurinn sem fer ferð eftir ferð upp og niður árnar til að ná rétta saltmagninu,( er að smolta sig) er sleginn út af laginu í ótrúlega aumingjalegum slag við mann með sem stendur í miðri á með agn á línu, agn sem fiskurinn getur ekki staðist, eftir veturlanga dvöl á hrygningastöðvunum. Magnað að landeigendur skulu ganga svona um náttúruna.

Mér þykir súrt í broti að horfa upp á þetta háttarlag, áratugum saman, án þess að nokkur hreyfi mótmælum. Landeigendur sjá þarna aura og á meðan þetta er löglegt verður það peningagræðgin sem ræður för, vart getur það verið annað.

Látum af þessum ósóma, gefum náttúrunni sinn sjens.


Náttúruvernd eða tóm leiðindi.

Ferðamenn hafa í áranna rás, rölt upp í Foss heima, skoðað sig um, skolað sig í læknum, legið mót sólinni með strá í munni, notið staðar og stundar. Slíkt hefur verið notaleg viðbót við flóruna í sveitinni, En öllu má nú ofgera.

Strax sumarið 2010 sá maður að fleiri rútur stoppuðu, fjöldinn greinilega margfaldaðist. 
Veturnir eru orðnir svipaðir og sumrin voru fyrir nokkrum árum, slíkur er fjöldinn sem ferðast um landið. Bílaleigubílar, smárútur, jeppar og 60 manna rútur voru komnar upp fyrir hlöðu hjá Sigga heitnum, tóku svo hringinn uppi á túni.  Ótrúlegur fjöldi var stundum samankominn í Fossinum, upp um alla brekku, ofaná öllum steinum, utan í klettum, þannig að hreinlega fór um mann, maður bað þess að enginn slasaðist.

Það var svo síðastliðið vor að mér fannst að það yrði að bregðast við, Fossinn var að traðkaðst niður í svaðið. Götur að myndast og slóðarnir að skerast niður úr sverðinum.  Svo ekki sé talað um mannaskítinn og klósettpappír á milli steinanna þar sem áður var legið með strá í munni. 

Við krakkarnir á Fossi vorum alin upp við virðingu gagnvart Fossinum, steinunum, torfunum. Okkur var kennt að hlífa þessum dásamlega stað,  við rifum ekki gróðurinn upp í Fossinum, spörkuðum ekki gróðrinum af klettunum.  Við lékum okkur í læknum, mynduðum stíflur, veiddum silung, nutum þess að vera þarna og  var sagt að þarna byggi huldufólk. 

Það var þrennt í stöðunni, þarna í vor sem sagt:

a) Að láta sem ekkert sé.
b) At taka í taumana þegar allt verður í svað farið.
eða c ) Að grípa þegar inní áður og halda hlífiskyldi yfir Fossinum kæra og hans umhverfi.

c) varð fyrir valinu. Loka fyrir gangandi umferð upp í Foss.

Þannig verður ráð til að meta stöðuna, gera aðstöðu til skoðunarferða eða hvað menn vilja gera í þeim efnum.
Það verður að hafa það þó einhverjir verði pirraðir, maður verður jú að láta náttúrna njóta vafans :)

IMG_2700

IMG_2694

 

IMG_2696

 IMG_2707

 


1. safn 2012


Vor"veiðimennirnir"

 Ég ætla svo sannarlega að vona að svokallaðir “veiðimenn” sem nú standa í skaftfellsku ánum, fái ekki bröndu. Tæplega verðu mér að ósk minni, niðurgöngufiskur bítur á hvað sem er.
Það er gott fyrir menn sem veiða yfirleitt lítið að fara í vorveiði. Einnig er það gott fyrir menn sem ekki hafa þroskann til að bíða eftir að fiskurinn komi til baka að skella sér í vorveiði. Vorveiði er kjörin fyrir menn sem í raun kunna ekki að umgangast veiðiár.

Á seinni árum hafa menn reyndar farið út í að veiða aðeins á flugu og veiða og sleppa stíllinn er sagður viðhafður. Það er nú líka það eina sem hægt er að gera við niðurgöngufiskinn, nema ef vera skyldi að setja hann í ruslagáminn á Klaustri, eina og oft hefur sést.

Mýtan um nýgenginn sjóbirtinginn er jafn hjákátleg og áður, enda sér maður það sjaldnar nefnt í bólgnum greinum þar sem menn stæra sig af tugfiska veiði á dag. Sjóbirtingurinn sem fer ferð eftir ferð upp og niður árnar til að ná rétta saltmagninu,( er að smolta sig) er sleginn út af laginu í ótrúlega aumingjalegum slag við mann með sem stendur í miðri á með agn á línu, agn sem fiskurinn getur ekki staðist, eftir veturlanga dvöl á hrygningastöðvunum. Magnað að landeigendur skulu ganga svona um náttúruna.

Mér þykir súrt í broti að horfa upp á þetta háttarlag, áratugum saman, án þess að nokkur hreyfi mótmælum. Landeigendur sjá þarna aura og á meðan þetta er löglegt verður það peningagræðgin sem ræður för, vart getur það verið annað.

Látum af þessum ósóma, gefum náttúrunni sinn sjens.

KvHelgi Pálsson.

Frásögn 11 ára drengs

Eftir Gísla Gíslason
Rauðabergi Fljótshverfi
Fæddur 1872

Frásögn Gísla úr „Söguþættir Landpóstanna, 1. bindi," eftir Helga
Valtýsson 1942

"Til dæmis um það sem unglingum var ætlað í þá daga, ætla ég
að segja eftirfarandi sögu:

Haustið 1883 var ég sendur af heimili mínu, Rauðabergi í
Fljótshverfi, að Jórvíkurhryggjum í Álftaveri til þess að sækja þangað 5 ær sem
móðir mín hafði keypt þar, því að hún hafði misst nær allt sitt fé vorið áður,
fellisvorið mikla 1882, sama vorið og faðir minn dó. Myndi mörgum virðast það
forsending, því að leiðin, sem ég fór, mun vera stíf fjögurra daga ganga fyrir
fullorðinn mann hvora leið, en sex daga var ég að ganga fyrri leiðina.

Sumt af þessari leið eru erfiðir fjallvegir, því ég fór
vestur allar Síðuheiðar, út í Skaftártungu og síðan suður í Álftaver. Á þessari
leið eru margar smáár og tvær stórár, Svínadalsvatn og Geirlandsá, ennfremur
Hólmsá milli Skaftártungu og Álftavers, en yfir hana mun ég hafa verið reiddur
frá Hrísnesi. Fór ég að mestu eftir tilsögn og ávísan einstakra manna á bæjum
þeim er ég gisti á, en fékk þó fylgd einstaka spotta. Þá var ég 11 ára að
aldri.

Þá bjó á Holti á Síðu Runólfur heitinn hreppsstjóri. Lét
hann fylgja mér nokkuð inn á svonefndan Holtsdal og sagði mér svo til vegar út
heiðarnar. Á þeirri leið kom fyrir smáatvik, sem ég hefi munað síðan. Skömmu
eftir að ég hafði sagt skilið við fylgdarmann minn, mætti ég stelpu einni, á að
giska um fermingaraldur, tötralega búinni og fremur ískyggilegri útlits, svo að
mér stóð tæplega á sama. Ég áræddi þó að ávarpa hana og sagði:  „Sæl vertu"  
Stelpan nam staðar, glápti á mig stórum augum
og sagði síðan: „Sæl vertu segirðu" Mér flaug undir eins í hug, að mér hefði
missýnst og þetta væri strákur en ekki stelpa og sagði því: „ Jæja, eða sæll
vertu þá" En þá tók stelpan til að hlæja án þess að svara mér. Ég spurði þá:"
Hvar áttu heima?" Benti hún þá inn með fjallinu og sagði:" Þarna" Ég leit
þangað, en sá engan bæ. Tók hún því næst á rás fram hjá mér og stefndi upp í
heiðina. En ég hraðaði mér leiðar minnar, því mér duttu strax í hug kynjasögur,
sem nóg var af í þá daga, meðan þjóðtrúin um huldufólk og útilegumenn skipaði
enn öndvegi í hugum manna, og taldi ég líklegt, að þarna hefði eg hitt annnað
hvort vofu, huldukonu eða útilegustelpu. En að vörmu spori kom stelpan á eftir
mér. Var hún nú ríðandi og fór geyst. Kallaði hún til mín og sagði: „ Viltu
ekki fara á bak fyrir aftan mig?" En ég kvað nei við, því mér stóð ógn af
henni. Þeysti hún síðan leiðar sinnar inn með fjallinu og hvarf. Þóttist ég
góðu bættur að vera laus við hana.

Lá nú leið mín um óbyggðan fjallveg, mjög óljósa götuslóða,
en endalausir heiðaflákar á alla vegu, villugjarnir ókunnugum. Þó komst ég alla
leið að Skaftárdal um kvöldið. Er mér minnisstætt, hve feginn ég varð er
ég  sá bæinn, en hann sést eigi fyrr en
komið er heim að túninu, því að hár heiðarkambur umlykur túnið austan og
norðanvert. Þá bjó á Skaftárdal Magnús hinn ríki, sem mörgum var kunnur. Sagði hann
mér, að stelpa sú, er ég mætti á dalnum, hefði verið frá Hervararstöðum, sem er
hjáleigukot frá Holti. (Það kot er komið í eyði fyrir löngu) Var það skammt
frá, sem leið mín lá, en leiti bar á milli. Giskaði Magnús á, að stelpan hefði
verið að sækja hesta upp í heiðina. Var hún geggjuð.

Frá Skaftárdal fór ég að Hlíð í Skaftártungu, þar bjó þá Jón
Eiríksson, frændi minn. Þegar ég kom þangað, var hann hissa að sjá, að ég,
svona lítill hnokki, skyldi hafa komist alla þessa leið yfir veglaus fjöll og
vötn. Í viðurkenningaskyni fyrir þetta afrek mitt gaf hann mér gráa gimbur.
Hafi hann gaman af að sjá til, hversu mér reiddi af með hana alla þá leið,
semég átti fyrir höndum.Hafa víst fáar gjafið orðið mér til meiri fagnaðar en
þessi gimbur. Fór ég síðan, sem leið liggur, út að Hrísnesi og þaðan í
Álftaver. Hafði ég gimbrina í bandi. Rak ég hana síðan með hinum kindunum.
Heimleiðis fór ég um Meðalland og Landbrot. Man ég óglöggt eftir þeirri leið,
fyrr en ég kom að Breiðabólsstað á Síðu. Þar bjó Sigurður heitinn Sigurðsson
trésmiður. Munu engir fullorðnir hafa verið heima, er ég kom þangað. Márgrét,
dóttir Sigurðar, sem þá var 9 ára gömul, varð til að fylgja mér austur að
Hörgsá, sem er smáá skammt austan við Breiðabólsstað. En seinna varð hún konan
mín. Man hún eftir því, að ég fór úr sokkunum yfir ána. Var frost og mýrarnar á
haldi, og hefi ég verið þurr í fætur. En þá var siður að fara úr sokkum, og
jafnvel buxum, ef menn þurftu ekki að vaða nema læki eða ár. Man hún einnig
eftir því, að við kvöddumst með kossi, en það voru algengustu kveðjusiðir í þá
daga. Þessu atviki hafði ég sjálfur gleymt."



Foss á Síðu

Loftmynd

Bæjaskipan á Fossi: Austurbærinn ( Stuðlafoss-Foss 1 og Fagrifoss), Vesturbærinn í miðjunni og Miðbærinn vestastur. Skákin neðan vegar. ( Hamrafoss)


Sumardagurinn fyrsti 2009


Heimþrá.


Austursíðuafréttur

http://www.youtube.com/watch?v=Wqt8rP3CL5M

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband